Fara í efni

Aðsent efni

Aðsent efni

Pistill frá Skógum

Kæru sveitungar

Þá er enn eitt sumarið að renna sitt skeið. Eins og undanfarin sumur hefur það átt sín sérkenni. Ég upplifði það sem hlýtt, sólríkt en úr hófi þurrt alla vega þar til síðsumarið gekk í garð. Það hefur verið venja í Skógum að planta að vori en það var engin áætlun um plöntun þetta vorið, kannski sem betur fer, því litlar skógarplöntur hefðu átt erfitt með að að festa rætur í þessum þurrki.

Nú á haustdögum fer fram plöntun á 30.000 birkiplöntum en það eru mótvægisaðgerðir Vegagerðarinnar vegna Teigsskógar. Haustrigningar og lægra hitastig haustsins virkar eins og náttúruleg vökvun og kaldur bakstur á rætur plantnanna vonandi með aukinni lifun.

Þið sem þekkið Skógalandið frá þjóðveginum hafið kannski áttað ykkur á því hvernig það skiptist í þrjá hluta. Nyrst er það, sem við köllum gamla skóg. Sunnan við Bolagil að merkjum við Kinnarstaði köllum við nýja skóg

Ósnerta svæðið milli gamla og nýja skógar er kringum og ofan við minnismerki Matthiasar. Þetta svæði hefur haft sérstöðu í okkar huga og er því nánast ósnert þar til núna. Um þessar mundir fer fram fyrsta öfluga gróðursetningin í þetta svæði. Það er Vegagerðin sem hefur fengið leyfi til að planta þarna til mótvægis við það sem fellt var vegna Teigskógarvegar. Birki er trjátegundin sem plantað er. Það finnst okkur vel við hæfi því það var tegundin sem Matthias þekkti og ólst upp við. Birkiskógur var skógur Matthiasar. Sá skógur sem hann orti um:

Skógurinn horfinn

er skreytti hér fold,

fallinn og sorfinn

í fen eða mold.

 

En vonin yfirgaf ekki Matthias og hann sneri sér til skaparans með þessum orðum:

Friði drottinn fjörðinn minn

fósturbyggð og þingstaðinn.

Blessi lýð og landsins plóg

og lífgi við minn gamla skóg.

Vonandi er það sem er að gerast núna upphafið að því að bæn þjóðskáldsins rætist.