30 ár liðin frá snjóflóðinu á Grund
Núna 18. janúar eru 30 ár liðin síðan snjóflóð féll á Grund og jafnaði við jörðu nánast öll útihús á bænum. Þegar snjóflóðið féll voru feðgarnir Ólafur Sveinsson og Unnsteinn Hjálmar Ólafsson, bændur á Grund, að ljúka gegningum að kvöldi og voru í þann mund að yfirgefa húsin. Þeir lentu í flóðinu með þeim afleiðingum að Ólafur fórst, en Unnsteinn komst lífs af.
Hjónin á Grund, Ólafur Sveinsson og Lilja Þórarinsdóttir
Ekki er ætlunin að rekja hér atburðarásina nema í stórum dráttum, það hefur verið gert annars staðar, m.a. í grein eftir Kristínu Ingibjörgu Tómasdóttur mágkonu Ólafs, sem var á staðnum þegar björgunaraðgerðir voru í gangi. Einnig er frásögn af þessu, ásamt flóðinu í Súðavík sem féll 2 dögum fyrr, í bókinni Þrekvirki eftir Egil St. Fjeldsted, auk frétta í blöðum dagana á eftir.
mynd, Byggðasafn Dalamanna/Lárus Magnússon
Það er gott að hafa í huga að á þessum tíma og áður, gerðu færri sér grein fyrir þvílíkir óhemju kraftar eru í snjóflóðum, heldur en í dag. Þau hafa ekki endilega verið sjaldgæfari þá, en oft og tíðum varð fólk ekki vart við þau fyrr en nokkru eftir að þau féllu og blessunarlega ollu þau sjaldan slysum en oft einhverjum skemmdum.
Ólafur, eða Óli á Grund eins og flestir kölluðu hann, hafði búið á Grund ásamt konu sinni Lilju Þórarinsdóttur frá 1958. Þegar þarna er komið sögu bjuggu þau með Unnsteini syni sínum og einnig bjó eldri sonur þeirra, Guðmundur, þar. Óli og Lilja voru ákaflega vinsæl og alltaf var mjög gestkvæmt á Grund. Margar góðar minningar koma upp í hugann þegar rifjuð eru upp kynnin við þau. Með því fyrsta sem rifjast upp er hvað gaman var að heilsa Óla, hann var yfirleitt kíminn á svip og eitthvert sambland af glettni og hlýju í viðmótinu.
Þetta þekktu flestallir sem komu að snjóflóðinu óveðursnóttina fyrir 30 árum.
mynd, Unnsteinn Ólafsson.
mynd, Unnsteinn Ólafsson.
Lilja lést árið 2013 á 91. aldursári, en þeir bræður, Unnsteinn og Guðmundur búa enn á Grund. Guðmundur býr á Litlu-Grund sem hann byggði ásamt konu sinni Ástu Sjöfn Kristjánsdóttur og Unnsteinn býr í gamla húsinu.
Í óformlegu viðtali sem sá er þetta ritar átti við Unnstein á dögunum, féllst hann góðfúslega á að rifja upp þessa erfiðu atburði. Aðdragandann að flóðinu, þegar þeir feðgar voru að ljúka gegningum man hann nokkuð glöggt, lætin í veðrinu voru slík að þeir fengu hellu fyrir eyrun vegna þrýstingsbreytinga. Síðustu orðaskiptum þeirra feðga og hvar þeir voru staddir þegar flóðið reið yfir gat hann lýst mjög nákvæmlega, og hann vissi fullkomlega af sér meðan hann barst með flóðinu. Þegar það stöðvaðist þá gat hann hreinsað frá vitunum og fann að hann gat andað nokkuð eðilega og einbeitt sér að því að halda ró sinni. Það hvarflaði ekki að honum neinn efi um að þeir myndu finnast. Eftir það man hann ekkert fyrr en hann kom suður á Borgarspítalann, nema að hann heyrði í þyrluspöðunum einhverntíma á leiðinni.
Unnsteinn Hjálmar Ólafsson
Unnsteinn hefur erft stóíska ró og glettni föður síns í töluvert miklum mæli og æðruleysi gagnvart hlutum sem ómögulegt er að stjórna. Hann sagðist ekki eiga neitt tiltakanlega erfitt með að rifja þetta upp, og vont veður vekti ekki ugg hjá honum, „en mér er ekkert sérstaklega vel við snjó“ sagði hann.
Fjölskyldan dvaldi ekki á Grund það sem eftir var vetrar. Þau voru á Reykhólum fram í maí.
Þegar fór að vora ákváðu mæðginin á Grund að halda áfram búskapnum, þrátt fyrir þessi þungu áföll. Strax um sumarið var hafist handa við að byggja ný fjárhús. Byrjað var að grafa grunn 17. júní og húsin voru fullbyggð 27. október, 1995.
Grafið fyrir grunni að nýju fjárhúsunum, mynd Byggðasafn Dalamanna/Lárus Magnússon.
Steypuvinna, Kristján Þ. Ebenesersson, Magnús V. Jónsson, Bjarki Þ. Magnússon og Ebeneser Jensson. mynd, Unnsteinn Ólafsson.
Guðlaugs steypu á Grund þeir fá.
Góða stefnu Ebbi tekur.
Bjarki og Magnús benda á.
Bráðum Kristján mótin skekur.
Höf. Hjörtur Þórarinsson.
Salvar Kristjánsson. mynd, Unnsteinn Ólafsson
mynd, Unnsteinn Ólafsson.