Fara í efni

500. fundur sveitarstjórnar Reykhólahrepps á miðvikudag

06.11.2023
Fréttir
Hreppsnefnd Reykhólahrepps eftir sameiningu 1987; aftari röð: Jóhannes Geir Gíslason, Smári Hlíðar Baldvinsson, Einar Valgeir Hafliðason, Karl Kristjánsson og Stefán Magnússon. Fremri röð: Áshildur Vilhjálmsdóttir, Guðmundur Ólafsson og Reinhard Reynisson sveitarstjóri.
Hreppsnefnd Reykhólahrepps eftir sameiningu 1987; aftari röð: Jóhannes Geir Gíslason, Smári Hlíðar Baldvinsson, Einar Valgeir Hafliðason, Karl Kristjánsson og Stefán Magnússon. Fremri röð: Áshildur Vilhjálmsdóttir, Guðmundur Ólafsson og Reinhard Reynisson sveitarstjóri.

Á miðvikudag verður haldinn 500. fundur sveitarstjórnar Reykhólahrepps.

Reykhólahreppur í núverandi mynd var stofnaður 4. júlí 1987. Hann varð því 36 ára sl. sumar. Í fyrstu sveitarstjórn var þess gætt að allir hrepparnir sem voru sameinaðir ættu fulltrúa, nema Múlasveit reyndar, en þar var enginn búsettur þegar þarna var komið.

Frá Reyhólahreppi „gamla“ voru Guðmundur Ólafsson, Smári H. Baldvinsson og Stefán Magnússon, úr Geiradalshreppi voru Áshildur Vilhjálmsdóttir og Karl Kristjánsson, úr Gufudalssveit var Einar V. Hafliðason og úr Flateyjarhreppi var Jóhannes G. Gíslason. 

Á þessum 36 árum hafa að meðaltali verið haldnir fundir oftar en mánaðarlega, eða 13,9 fundir á ári. Fundir eru nokkuð mismunandi langir, en ekki er fjarri lagi að þeir séu u.þ.b. 2 klst. að meðaltali, og þá er búið að verja 1000 klst. í hreppsnefndarfundi. Meðaltöl eru kannski ekki besti mælikvarðinn á þessa formlegu stjórnsýslu, en þetta er sett fram til gamans.

Núverandi sveitarstjórn: Vilberg Þráinsson, Árný Huld Haraldsdóttir oddviti, Margrét Dögg Sigurbjörnsdóttir, Jóhanna Ösp Einarsdóttir varaoddviti og Hrefna Jónsdóttir.

Þess má geta til gamans að Jóhanna Ösp er dóttir Einars sem var í 1. hreppsnefndinni og Árný Huld er tengdadóttir Smára.