Fara í efni

Afturelding á unglingalandsmóti UMFÍ

11.08.2023
Fréttir

Ungmennafélagið Afturelding tók þátt í unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina.

 

 

Alls voru 12 krakkar frá ungmennafélaginu sem tóku þátt í 9 greinum á mótinu þar sem þau kepptu í:

Bogfimi

Á hestum

Körfubolta

Fótbolta

Frisbígolfi

Pílu

Frjálsum

Kökuskreytingum

Biathalon

og prófuðu fleira.

 

Fyrst og fremst var einstaklega ánægjulegt að sjá krakkana okkar keppa í greinum sem þau hafa verið að æfa í vetur eins og bogfimi, á hestum, körfubolta og fótbolta en það er líka mikilvægt að hafa í huga að góð aðstaða til að æfa sig skilar skráningum og árangri eins og sjá má á frisbí golfinu.

Einnig var gaman að sjá krakkana fara út fyrir þægindarammann og prófa sig áfram í greinum sem þau hafa ekki tekið þátt í áður eins og biathalon, kökuskreytingum, hæfileikakeppni og fleiru. Margir voru að stíga sín fyrstu skref í keppni og er það oft stórt skref. Að taka þátt er alltaf ákveðinn sigur, og keppendur ungmennafélagsins komu heim með 11 medalíur af mótinu og við áttum landsmótssigurvegara í eldri flokki í bogfimi bæði í opnum og lokuðum flokki en það var Ísak Logi Brynjólfsson.


Ungmennafélagið þakkar öllum keppendum kærlega fyrir þátttökuna og samveruna um helgina og erum við heldur betur bjartsýn á framtíðina þegar svona flott ungt fólk er annarsvegar.


Unglingalandsmót er fyrirmyndarviðburður þar sem fullorðnir og börn koma saman á heilbrigðum vettvangi sem hefur mikið forvarnargildi, samvera er besta forvörnin.


Það gefur mér mikla gleði að fá að vera formaður ungmennafélagsins og sjá árangur af mikilli elju unga fólksins okkar, þau sýndu það og sönnuðu að þau eiga heima á svona viðburðum.


Fyrir hönd ungmennafélagsins

Styrmir Sæmundsson

Formaður ungmennafélagsins Aftureldingar