Fara í efni

Afturelding hélt upp á 100 ára afmælið

06.07.2024
Fréttir
Einar Mikael töframaður sýndi ýmis brögð
Einar Mikael töframaður sýndi ýmis brögð

Ungmennafélagið Afturelding Reykhólum hélt upp á 100 ára afmælið sitt í síðustu viku og bauð gestum og gangandi upp á hamborgara, galdrasýningu, gögl mámskeið og teymt var undir yngstu þátttakendunum. Jafnframt var líkamsræktin Grettir sterki tekin í notkun eftir miklar endurbætur.

Undanfarið ár hefur verið viðburðarríkt hjá Aftureldingu og jafnvel eitt það viðburðaríkasta í sögu félagsins. Mikil vinna fór í endurbætur á líkamsræktaraðstöðu ungmennafélagsins í kjallara sundlaugarinnar. Sagaður var niður veggur til að stækka rýmið og opna það. Ungmennafélagið keypti mikið af nýjum búnaði fyrir ræktina og fékk mikla aðstoð frá starfsmönnum sveitarfélagins við vinnuna. Næst á dagskrá er að koma upp aðstöðu fyrir þrek tækin ásamt því að starfsfólk áhaldahússins munu skipta um hurðir og koma upp salernisaðstöðu þarna niðri.

Ásamt þessum framkvæmdum keypti Afturelding pokavarp sem við hlökkum mikið til að nýta. Eins og fram hefur komið í pistli áður blómstraði þátttaka í bogfimi á árinu, en um 20 iðkendur mættu á æfingar . Við áttum 4 keppendur á íslandsmeistaramóti innandyra og komu þeir allir með medalíur heim, ásamt 2 íslandsmeistaratitlum og einu íslandsmeti.

Þátttaka í íþróttastarfi hefur verið frábær í vetur og teljum við okkur heppin að fá að vinna með þessum börnum. En Afturelding er hvergi nærri hætt í uppbyggingu á starfinu. Næst á dagskrá eru nýir búningar og að koma nýju lógói í gagnið.

Við teljum mörg tækifæri í þátttöku fullorðna fólksins og erum að stefna á að hafa regluleg námskeið fyrir fullorðið fólk með yfirskriftinni SAMEINUMST Í ÞÁTTTÖKU. En við viljum leita til ykkar með hugmyndir að námskeiðum og að þið séuð þátttakendur í að móta það starf.