Ásborg Styrmisdóttir hlaut hvatningarverðlaun UDN, Drifskaftið

Það er virkilega gaman að sjá hvað unglingarnir okkar eru duglegir í íþrótta- og félagsstarfi. Má þakka það öflugu tómstundastarfi undanfarin ár sem hefur verið stýrt af tómstundafulltrúa og ungmennafélaginu Aftureldingu. Unga fólkið hefur fengið tækifæri og hvatningu til að prófa og stunda margs kyns íþróttir, má þar nefna boltaíþróttir, bogfimi, skíðaiðkun, hestamennsku og sund, einnig ýmis konar félagsstarf, tónlist og sitthvað fleira.
Á vegum Ungmennasambands Dalamanna og Norður Breiðfirðinga -UDN- eru veittar hvatningarviðurkenningar sem bera það skemmtilega heiti Drifskaftið.
Á dögunum hlaut Ásborg Styrmisdóttir í Fremri - Gufudal Drifskaftið. Hún hefur stundað bogfimi hjá UMFA og keppt fyrir hestamannafélagið Glað í Dölum.
Drifskaftinu fylgdi þessi umsögn:
Ásborg hefur verið virkur þáttakandi í bogfimi hjá Aftureldingu og tekið þátt í öllum æfingum sem í boði eru. Hún tók þátt á íslandsmeistaramóti Bogfimisambands íslands u18 innanhúss og lenti þar í fyrsta sæti í liðakeppni og setti jafnframt íslandsmet. Þá var hún í öðru sæti bæði í blönduðum flokki og kvennaflokki.
Ásborg hefur líka verið virkur þáttakandi /keppandi fyrir hestamannafélagið Glað. Hún keppti á unglingalandsmóti í Borgarnesi, vetrarmóti Borgfirðings og Hestaþingi Glaðs.
Ásborg er drífandi og dugleg við að fá aðra til að koma með á mót og er góð fyrirmynd innan vallar sem utan.
Hún hefur verið dugleg við að sinna hestamennskunni og hefur meðal annars starfað s.l. sumur við reiðnámskeið á sumarnámskeiðum á Reykhólum og staðið sig vel.