Fara í efni

Bogfimiæfingar á Reykhólum.

18.03.2023
Fréttir
Þjálfarar ásamt þeim Gumma og Völu.
Þjálfarar ásamt þeim Gumma og Völu.

Hér í Reykhólahreppnum hefur vaknað töluverður áhugi á bogfimi. Hingað komu frá Bogfimisambandi Íslands, þau Guðmundur Guðjónsson og Valgerður Einarsdóttir Hjaltested, (þau eru sátt við að vera kölluð Gummi og Vala). Þau voru að kenna undirstöðuatriðin í bogfimi og meðferð og hirðingu búnaðarins.

8 manns sóttu þjálfaraleiðsögn hjá þeim, þau Lóa á Kambi, Rebekka á Stað, Kolfinna Ýr, Sjöfn Sæmunds., Sandra Rún, Jóhanna Ösp, Styrmir Sæmunds. og Eiður Rafn.

Gummi og Vala höfðu meðferðis búnað til bogfimiiðkunar sem Þörungaverksmiðjan gefur Ungmennafélaginu Aftureldingu, það eru 12 bogar af ýmsum gerðum sem henta fólki á mismunandi aldri, hellingur af örvum, skotmörk og ýmis aukabúnaður og verkfæri til viðhalds á græjunum.

Hugsunin með því að hafa svona mikið úrval af bogum í stað þess að hafa bara eina gerð boga meðferðis er að gefa krökkunum færi á því að prófa allar mismunandi keppnisgreinar innan íþróttarinnar. Þar sem að krakkar finna sig í mismunandi keppnisgreinum innan íþróttarinnar, sumir kunna betur við „hráu“ gamaldags bogana eins og langboga, aðrir finna sig meira í „tæknibogum“ eins og trissubogum o.s.frv. Með þessu móti erum við mun líklegri að fá krakkana til þess að halda áfram í íþróttinni, og fyrir þá sem eru bara að stunda íþróttina til dægrardvalar þá er mun meira gaman að fá meira úrval af búnaði til þess að leika sér með og prófa.

Eftir að þjálfarar og leiðbeinendur höfðu fengið tilsögn hjá þeim Gumma og Völu, voru prufutímar bæði fyrir krakka og fullorðna þar sem allir sem vildu fengu að prófa að skjóta af boga.

Finnur Árnason framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar kom og afhenti Ungmennafélaginu búnaðinn og veitti Styrmir Sæmundsson honum viðtöku ásamt krökkunum. Finnur prófaði að sjálfsögðu að skjóta nokkrum örvum og gekk bærilega.

Myndir :Bogfimi á Reykhólum 18. mars 2022