Farmallinn smíðaður lýðveldisárið
Hátíðahöld í Reykhólahreppi á þjóðhátíðardaginn voru í Hvanngarðabrekkunni.
Dagskrá var í höndum Kvenfélagsins Kötlu, hófst hún með skrúðgöngu og síðan flutti fjallkonan ávarp. Í hennar hlutverki var að þessu sinni Birna Björt Hjaltadóttir, sem skilaði því með miklum sóma.
Að því loknu voru leikir hjá ungu kynslóðinni. Pylsur voru grillaðar ofan í mannskapinn og svo voru dýrindis kökur í boði forsætisráðuneytisins í tilefni af 80 ára afmælis lýðveldisins.
Þarna í brekkunni stóð traktor, jafngamall lýðveldinu, árgerð 1944. Hann mun hafa komið nýr að Leirvogstungu í Mosfellssveit. Þessi vél er af gerðinni Farmall A, rúm 18 hestöfl og vegur um 1200 kg. Þetta þykja ekki stórar vélar í dag og myndi raunar fáum detta í hug að nota svona verkfæri við landbúnaðarstörf, þó þetta væru gríðaröflug tæki fyrir 80 árum.
Það er ekki að sjá að þarna sé áttrætt verkfæri, Farmallinn er í þokkalegu lagi og lítur ljómandi vel út, enda búinn að komast í hendurnar á Unnsteini á Grund.