Fjársjóður fjalla og fjarða, starfsemi formlega hafin

Nýliðna helgi var íbúaþing á Reykhólum. Það var upphaf þáttöku Reykhólahrepps í verkefninu Brothættar byggðir, sem er leitt af Byggðastofnun og Vestfjarðastofa er einnig þátttakandi.
Verkefnisstjóri er Embla Dögg Bachmann á Reykhólum, og stjórn verkefnisins skipa fulltrúar Byggðastofnunar, Helga Harðardóttir og Kristján Þ. Halldórsson, frá Vestfjarðastofu Aðalsteinn Óskarsson, fulltrúi sveitarstjórnar Reykhólahrepps er Hrefna Jónsdóttir og fulltrúar íbúa Guðlaug G. I. Bergsveinsdóttir og Vésteinn Tryggvason.
Þinginu stýrði Sigurborg Kr. Hannesdóttir frá Grundarfirði og vannst framúrskarandi vel undir hennar stjórn.
Fjölmörg mál voru tekin til umræðu á íbúaþinginu, í samtals 17 málefnahópum og mun verða horft til allra málefnanna í mótun verkefnisáætlunar. Sérstaklega var ánægjulegt að fulltrúar yngri kynslóðarinnar tóku virkan þátt á íbúaþinginu.
Aldrei, í tengslum við verkefnið „Brothættar byggðir, hefur verið jafn frjó og einlæg umræða á íbúaþingi, um samskipti og mátt íbúanna til að skapa gott samfélag.
Undir lok þingsins var kosið heiti á verkefnið úr 6 tillögum sem komu fram.
Fjársjóður fjalla og fjarða var valið og þegar niðurstaða var ljós kvaddi Erla Reynisdóttir í Mýrartungu sér hljóðs og mælti fram þessa vísu:
Fjársjóður fjalla og fjarða,
hér finnur þú fegurð og frið.
Auðlegð afls og jarðar,
hver nýtir það nema við?
Þar með var tiltölulega auðvelt að láta sér detta í hug hver hefði átt hugmyndina.
Samantekt af þinginu er á vef Byggðastofnunar.