Fara í efni

Fundur um samgöngur á Patreksfirði

19.03.2025
Fréttir

Vegagerðin stóð fyrir fjölsóttum opnum íbúafundi á Patreksfirði í gær. Farið var yfir nýframkvæmdir á Vestfjörðum, bæði yfirstandandi framkvæmdir og hvað er framundan. Einkum var þar fjallað um Dynjandisheiði og Gufudalssveit. Framkvæmdum lýkur haustið 2026 á Dynjandisheiði og verður þá eftir kafli í Vatnsfirði við Flókalund svo og vegurinn af Dynjandisheiði niður í Arnarfjörð til Bíldudals.

Í Gufudalssveit var á dögunum auglýst útboð á tveimur brúm, en eftir er þá 240 metra brú yfir Djúpafjörð. Vegagerðin sagði á fundinum að útboð á henni yrði í haust eða í lok árs og að því verki yrði lokið í besta falli á árinu 2026, en hugsanlega 2027.

Þá var farið yfir jarðgangakosti á Vestfjörðum og forgangsröðun þá sem Vegagerðin lagði frá haustið 2023. Þar kom fram að Vegagerðin hygðist endurskoða þá forgangsröðun meðal annars vegna nýrra upplýsinga um umferðaþróun. Sérstaklega var bent á aukna umferð yfir Klettsháls og minnkandi umferð um Ísafjarðardjúp.

Einnig voru flutt erindi um stöðu vegakerfisins og vetrarþjónustu. Fundarmenn báru fram margar fyrirspurnir sem frummælendur svöruðu eftir bestu getu.

Af bb.is