Gauti frá Kambi í viðtali í Skessuhorni
Í 25 ára afmælisblaði Skessuhorns eru viðtöl við fólk sem hefur unnið við blaðið. Meðal þeirra er Kristján Gauti Karlsson, sem á rætur að rekja í Reykhólasveitina. Viðtalið er hér tekið traustataki og birt í heild sinni, í þeirri von að ritstjórn Skessuhorns láti óátalið þó að við séum dálítið stolt af verkum Gauta.
Kristján Gauti Karlsson, texta- og hugmyndasmiður á PiparTBWA, blaðamaður hjá Skessuhorni 2015-2020
Kristján Gauti Karlsson er uppalinn á Kambi í Reykhólasveit hvar foreldrar hans búa enn í dag. Sextán ára fór hann til menntunar í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, en sótti sveitina áfram heim á sumrin. „Ég fæddist reyndar á Akranesi líka, 9. apríl 1990. Það var mánudagur, sem gerir mig að svokölluðu mánudagseintaki.
Ég er með B.A.-próf í íslensku. Útskrifaðist reyndar ekki fyrr en í júní 2020, löngu eftir að ég byrjaði á Skessuhorni og raunar bara rétt áður en ég hætti. Lokaritgerðin var búin að bíða lengi ofan í skúffu á meðan skemmtilegri ritstörf áttu hug minn allan. Ég kláraði hana nú samt á endanum og útskrifaðist með fyrstu einkunn, sem er reyndar ekki jafn skínandi námsárangur og nafngiftin gefur til kynna,“ segir Kristján Gauti og bætir við. „Svo er ég auðvitað með vinnuvélaréttindi, eins og allt alvöru fólk! Hef meðal annars réttindi til að stýra hvaða lyftara sem er, ekki amalegt að geta státað sig af því enda finn ég mikið til mín hvenær sem talið berst að vinnuvélum. Reglulega reyni ég meira að segja að stýra umræðum í þá áttina, til að geta geta montað mig af skírteininu. Eins og núna.“
Kristján var blaðamaður á Skessuhorni í tæp sex ár en það var Emilía Ottesen, fyrrum markaðsstjóri Skessuhorns, sem hvatti hann til að sækja um það starf á sínum tíma. „Ég þekki Emilíu og hún vissi að ég gæti haft áhuga á þessu og það var auðvitað rétt metið hjá henni eins og svo margt annað. Mér hefur alltaf fundist gaman að skrifa og ég hef fylgst náið með málefnum líðandi stundar nánast frá því ég man eftir mér. Ég hafði séð fyrir mér að það gæti verið gaman að vera blaðamaður, svo þegar tækifærið bauðst þá auðvitað stökk ég til. Og ég sé ekki eftir því. Þetta var mjög skemmtilegt.“
Aðspurður um hvað hann hafi tekið með sér frá Skessuhorni og út í lífið eftir tæp sex ár í starfi segir Kristján Gauti að vinnan þar hafi vissulega gert hann áræðnari en hann var áður. „Sem var bara til góðs í mínu tilfelli. Stundum þarf maður að láta vaða, búa efnið sitt til og birta það. Ég varð líka betri í að hlusta á fólk og tala við fólk. Og ég varð miklu, miklu, miklu betri í að skrifa texta. Ég var ekkert galinn penni þegar ég byrjaði, svona miðað við 25 ára strák allavega. En æfingin sem felst í því að skrifa fréttir og viðtöl allan daginn, alla daga í mörg ár er engu lík,“ segir Kristján sem vinnur nú sem texta- og hugmyndasmiður á Pipar/TBWA.
„Eftir að ég hætti á Skessuhorni var ég ráðinn í þýðingarverkefni hjá máltæknifyrirtækinu Grammateki en síðan fékk ég núverandi starf hjá Pipar. Að öðrum störfum ólöstuðum, blaðamennskunni þar með talinni, þá er það besta djobb í heimi. Mér finnst ég virkilega vera búinn að finna fjölina mína hér.“ Kristján segir Skessuhorn alltaf eiga sinn stað í hjarta sínu, honum þyki mjög vænt um blaðið og tíma sinn þar. „Ég skoða alltaf blaðið þegar það kemur út og fylgist líka með því sem er að gerast hjá ykkur á vefnum og samfélagsmiðlunum. Það gleður mig að geta sagt í einlægni að mér finnst Skessuhorn vera að gera margt gott þessi misserin. Hlaðvarpið er til dæmis ein besta viðbótin við efnisframboðið síðustu ár og það byggir algjörlega á því sem Skessuhorn gerir best; að draga fram mannlífið í landshlutanum með viðtölum við áhugavert fólk. Það gleður mig að vita af miðlinum á þannig stað,“ segir Kristján Gauti sem rifjar svo upp nokkur eftirminnileg atvik frá sínum tíma á Skessuhorni.
„Margir viðmælendur eru eftirminnilegir, en ætli blaðamannaferill minn hafi ekki risið hvað hæst þegar ég tók viðtal við kött fyrir jólin 2017. Það var líka enginn venjulegur heimiliskisi, heldur skáldlæðan og mannfræðingurinn Jósefína Dietrich heitin, sem hún malaði ódauðlegan kveðskap milli þess sem hún skrásetti atferli mannfólksins. Þegar ég hafði samband við hana og óskaði eftir viðtalinu man ég að hún tók afar vel í það, sagði strax „mjá“ og að hún hefði frá mörgu að segja. Svo mörgu reyndar að hún fyrirgaf mér aldrei fullkomlega þegar jólablaðið kom síðan út og fjallaði ekki alfarið um hana.
Svo náði ég líka einu sinni tali af jólasveininum Bjúgnakræki í síma. Hann hafði þá daginn áður mætt óboðinn á árlega bjúgnahátíð í Langaholti á Snæfellsnesi, löngu fyrir áætlaðan komudag til byggða og hleypt hátíðinni í algjört uppnám þar sem hann óð frá einu fatinu í annað og gleypti bjúga eftir bjúga eftir bjúga, svo á tímabili leit út fyrir að bjúgnahátíðin yrði í besta falli bara hátíð.
En hvað varðar aðra viðmælendur, þar sem ég hafði ekki skáldaleyfi í viðtölunum, þá man ég eftir að hafa tekið viðtal við Soffíu G, Þórðardóttur, ljósmóður á Akranesi, sem hafði nýlega látið af störfum eftir áratugi í faginu. Ástæðan er auðvitað frekar sjálfhverf; ég var rétt nýbúinn að heilsa henni þegar hún hafði orð á því að við hefðum nú hist áður. Hún hefði nefnilega tekið á móti mér í heiminn, klippt á naflastrenginn og fært mig í fangið á móður minni tæpum 29 árum fyrr. Svo man ég alltaf eftir viðtali við Diðrik á Helgavatni. Hann fæddist í Hamborg 1927 og sagði mér af einlægni frá því hvernig var að upplifa óhug seinni heimsstyrjaldarinnar sem barn og unglingur.
Það var alltaf gaman að fara og hitta alls konar fólk og heyra hvað það hefur að segja, hvaða viðhorf það hefur til lífsins og ræða við það um hvað eina sem á daga þess hafði drifið. Hlusta á sögur sem maður hefði annars aldrei heyrt. Og stundum snerist þetta einfaldlega bara um að vera á staðnum, fylgjast með og dokúmentera þegar eitthvað var um að vera sem skipti fólk máli,“ segir Kristján Gauti að lokum.