„Hátt upp rísa hallirnar“
Í gær afhenti Tekta ehf. Reykhólahrepp nýreist raðhús, með fjórum 55m2 íbúðum. Húsið er frágengið að utan og verður hafist handa við að innrétta í beinu framhaldi.
Annað raðhús er leigufélagið Bríet að reisa örskammt frá. Þar er einnig um að ræða 4 íbúðir, um 90m2 hver.
Loks er svo Brák íbúðafélag að hefja byggingu raðhúss. Þar er unnið að uppstillingu „legokubba“, plasteininga sem sökklar hússins eru steyptir í , eins og undir fyrri húsin.
Fyrirsögnin er tilvitnun í vísu eftir Guðmund Arinbjörn Jónsson frá Hyrningsstöðum, sem var hnyttinn hagyrðingur. Vísan er ort einhvern tíma upp úr 1960. Á þeim árum var þónokkur uppbygging í sveitinni og á Reykhólum var m.a. byggt hús sem átti að verða mjólkurbú, en atvikin höguðu því þannig að það tók aldrei til starfa.
Húsið hefur samt yfirleitt verið kallað mjólkurbúið eða mjólkurbúshúsið gegnum árin. Eins og flestir vita er Báta- og hlunnindasafnið nú þar til húsa.
Vísan á við enn í dag, því byggingar bæta haginn með einum eða öðrum hætti.