Húsnæðisáætlun 2025

Komin er á vefinn Húsnæðisáætlun Reykhólahrepps 2025.
Í skýrslunni er þessi samantekt um atvinnu- og húsnæðismál í sveitarfélaginu.
Flest ársverk eru í landbúnaði í sveitarfélaginu. Störf við opinbera þjónustu, einkum Reykhólaskóla og Hjúkrunar- og dvalarheimilið Barmahlíð hafa mikið vægi í atvinnulífinu. Tæp 60 manns starfa hjá sveitarfélaginu.
Aðrir mikilvægir vinnustaðir eru Þörungaverksmiðjan og Norðursalt. Lítið sem ekkert atvinnuleysi er í sveitarfélaginu. Vöntun hefur verið á starfsfólki hjá Reykhólahreppi og hjá Þörungaverksmiðjunni. Ekki hefur fengist fólk til starfa vegna húsnæðisskorts.
Þörungamiðstöð Íslands hf. var stofnuð árið 2022 og er nýsköpunar- og rannsóknasetur á Reykhólum sem vonir standa til um að muni skapa ný störf í þangi og þara á Reykhólum og víðar.
Reykhólahreppur ætlar sér að verða hringrásarsamfélag og hefur ráðið til sín verkefnisstjóra til að vinna að því verkefni, auk þess sem fjármagn fékkst í gegnum Byggðastofnun og Vestfjarðarstofu til að vinna grunnvinnu að hringrásarsamfélaginu. Í hringrásarsamfélaginu Reykhólahreppi verða grænir iðngarðar með Þörungamiðstöð Íslands í fararbroddi.
Sveitarfélagið er aðili að verkefninu Brothættar byggðir, sem hefst núna í ársbyrjun 2025, sem einnig er unnið í samráði við Byggðastofnun og Vestfjarðastofu.
Markmið Reykhólahrepps er að byggja minni íbúðir 2 - 3 herbergja fyrir yngra fólk og einstaklinga, auk íbúða fyrir eldri borgara.
Í byggingu eru einmitt 12 íbúðir í raðhúsum og í vinnslu að innrétta fleiri íbúðir í dvalarheimilinu Barmahlíð.