Fara í efni

Skref í átt að kolefnishlutleysi Reykhólahrepps

24.05.2023
Fréttir
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Jóhanna Ösp Einarsdóttir, varaoddviti Reykhólahrepps. mynd af vef Stjórnarráðs
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Jóhanna Ösp Einarsdóttir, varaoddviti Reykhólahrepps. mynd af vef Stjórnarráðs

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Jóhanna Ösp Einarsdóttir, varaoddviti Reykhólahrepps, hafa undirritað samstarfsyfirlýsingu um framkvæmd aðgerða til að stuðla að kolefnishlutleysi í Reykhólahreppi sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og sveitarfélagið ætla að hrinda í framkvæmd.

Markmið stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og markmið um kolefnishlutleysi og full orkuskipti kallar á skýra sýn og nýja nálgun sem mun byggja á markmiðum fyrir einstaka geira atvinnulífsins, aukna áherslu á loftslagshagstjórn og forgangsröðun í þágu loftslagsmarkmiða á öllum sviðum samfélagsins. Til að þessum markmiðum verði náð er mikilvægt að tryggja samstarf ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs.

Lögð verður áhersla á aðgerðir til að hraða orkuskiptum, nýtingu glatvarma, orkunýtingu og möguleikum til aukinnar matvælaframleiðslu, kolefnisbindingar og nýtingu á lífrænum úrgangi.

-Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Íslensk stjórnvöld hafa sett sér markmið um kolefnishlutleysi árið 2040. Þetta metnaðarfulla markmið á eftir að reynast okkur stór áskorun og kallar á að allir leggi sitt af mörkum. Ég fagna því frumkvæði Reykhólahrepps að hrinda í framkvæmd aðgerðum sem stuðla að kolefnishlutleysi. Það skiptir máli að öll landsvæði taki þátt í þessari vegferð, enda er þetta verkefni okkar allra.“ Jóhanna Ösp Einarsdóttir, varaoddviti Reykhólahrepps: „Það eru mörg tækifæri í Reykhólahreppi til að taka þátt í uppbyggingu á samfélagsmynd framtíðarinnar. Við hlökkum mikið til í að vinna þetta með íbúunum okkar og ráðuneytinu. Mig grunar að í náinni framtíð eigi önnur samfélög eftir að horfa á Reykhólahrepp sem fyrirmynd þegar kemur að loftslagsmálum og sjálfbærri nýtingu auðlinda.“

Af vef Stjórnarráðs