Ingibjörg Birna í vikuviðtali BB
Ég heiti Ingibjörg Birna Erlingsdóttir og er kölluð Inga Birna af þeim sem þekkja mig. Ég er fædd á Patreksfirði 1970, dóttir Jóhönnu Björnsdóttur og Erlings Rafns Ormssonar. Ég er elst minna systkina en við eru þrjú. Auk þeirra á ég eldri hálfbróður.
Fyrstu árin bjó ég á Pateksfirði þar sem móðurfjölskyldan mín bjó, eða til fjögurra ára aldurs, þá fluttu foreldrar mínir með mig og systur mína til Selfoss. Við flutningana fórum til Reykjavíkur með skipinu Örvari og ég man aðeins eftir ferðinni um borð. Við bjuggum í eitt ár á Selfossi, þá lá leiðin til Hafnarfjarðar. Pabbi hafði alist upp í Hafnarfirði sem drengur, en hann átti heima stutta hríð á Rauðasandi á unglingsaldri áður en hann fluttist að heiman og fór til Patreksfjarðar, þannig æxlaðist það að hann og mamma kynntust. Mörg systkina pabba komu sér fyrir á Tálknafirði. Þannig átti ég stóra fjölskyldu bæði á Patró og á Tálknafirði. En Patreksfjörður heillaði, þar leið mér alltaf vel. Ég dvaldi þar hvert sumar hjá ömmu og afa eða hjá systkinum mömmu, allt fram á framhaldsskólaaldur og var ólm í að komast þangað um leið og skóla sleppti í Hafnarfirði.
Afi á Patró var trillusjómaður og amma húsmóðir þegar ég fór að muna eftir mér. Amma var mikil sauma- og prjónakona og við áttum það til að segja að henni félli aldrei verk úr hendi. Ég naut þess að sitja á tröppunum hjá ömmu á sumrin á Brunnunum og borða nýsprottinn rabbabara með sykri, dýfði rabbabaranum í sykurglasið sem amma mín hafði fært mér. Ég gekk um hjallana og tíndi ber þegar sá var tíminn. Amma lánaði mér berjatínu og fötu til verksins og oft koma maður hlaðinn berjum heim. Amma átti dýrindis skrautgarð og gróðurhús. Hún safnaði íslensku fánunni, þ.e. plöntum af öllu tagi. Löngum gekk ég með henni um garðinn þar sem hún þuldi upp nöfnin á plöntunum og bý ég að því enn í dag að þekkja þær.
Afi fór með okkur í hjallinn sinn þar sem hann verkaði hárkarl og grásleppu og þurrkaði rauðmaga fyrir reykingu. Þar fékk ég að smakka á sælgætinu eins og hann kallaði það. Afi kallaði mig alltaf kerlinguna sína þegar ég var lítil og bjó enn á Patró, hún Inga væri nú meiri kerlingin þegar hún gerði hitt og þetta. Eitt sinn var afi búin að brjóta upp stofugólfið á Brunnunum, þar sem hann og amma bjuggu, til þess að lagfæra frálagnir hússins. Þegar ég kom þangað í heimsókn með mömmu minni og sá stofuna alla á hvolfi, á ég að hafa sagt við hann: „þú ert nú meiri kerlingin afi, að fara svona illa með stofuna hennar ömmu”. Mér hafði lærst af honum að þannig tæki maður til orða og ég nota það enn í dag. Ég var í dálitlu uppáhaldi hjá ömmu og afa, því ég var fyrsta barnabarnið þeirra og er skírð í höfuðið á dóttur þeirra, systur mömmu sem dó ung.
Það var mikið frelsi að komast á Patró og þar eignaðist ég marga góða vini sem ávallt tóku mér opnum örmum um leið og ég mætti í plássið. Það var ekki leiðinlegt að upplifa það. Ég tók þátt í frjálsum íþróttum og keppti fyrir Hrafna-Flóka í hlaupi. Ég vann í frystihúsinu HP frá 13 ára aldri, passaði frændsystkini mín sem voru mörg og vann í vinnuskóla Patreksfjarðarhrepps og var svo heppin að taka þátt í því að klára frágang á íþróttavellinum Wembley eins og við kölluðum hann og var þá nýr íþróttavöllur sem verið var að taka í notkun fyrir ofan Mikladal. Þar tíndum við vinnuskólabörnin stórgrýti af vellinum og rökuðum hann dögunum saman svo hægt yrði að koma vellinum í notkun.
Ég man svo vel eftir snjóflóðunum á Patró, því þá sátum við fjölskyldan í Hafnarfirði og hlustuðum á fréttir í úrvarpi og sjónvarpi og gátum ekki annað en beðið fregna af afdrifum ættingja og vina
Í Hafnarfirði átti ég líka góðar stundir. Ég bjó á Álfaskeiðinu, nr. 78, 96 og síðast nr. 100. En mamma mín var á því að við systkinin skyldum ekki þurfa að skipta um skóla þótt fjölskyldan stækkaði og stækka þyrfti húsnæðið. Ég gekk því í Lækjarskóla alla grunnskólagönguna og fór þaðan í Flensborg þar sem ég útskrifaðist sem stúdent árið1991. Þá hafði ég eignast kærasta sem seinna varð eiginmaður minn og var frá Siglufirði, en við skildum að skiptum árið 2022.
Eftir útskriftina lá því leiðin til Siglufjarðar þar sem við stofnuðum heimili. Ég var svo heppin að fá starf sem aðstoðakona tannlæknis ég vann við það í stuttan tíma, varð fljótlega ófrísk af frumburði mínum sem kom í heiminn 1993. Fyrir átti kærasti minn 3 börn og eitt þeirra bjó alfarið hjá okkur. Ég vann ýmis störf á Siglufirði þau sex ár sem ég bjó þar, í rækjuverksmiðju Þormóðs ramma og síðan í frystihúsinu, var leiðbeinandi í grunnskólanum. Þá fluttum við til Hafnarfjarðar þar sem ég fór að vinna í skóverslun um tíma. Síðan lá leiðin til flugfélagsins Íslandsflugs. Þar var mjög gaman að vinna, ég byrjaði sem matráður í mötuneytinu þar og fékk svo að vinna mig upp í að verða ritari á skrifstofunni.
Um þrítugt var ég orðin gift kona þegar við fluttumst í Hvalfjörð eða Hvalfjarðarstrandahrepp, þar eignast ég tvö börn með stuttu millibili. Ég átti því orðið 3 börn og 3 stjúpbörn.
Við fengum góðar viðtökur í Hvalfirði og eignuðumst góða kunningja fljótlega. Á þessum tíma var verið að sameina sveitarfélögin sunnan Skarðsheiðar í eitt sveitarfélag og ég var svo heppin að fá vinnu sem fyrsti ritari hins nýja sveitarfélags sem fékk nafnið Hvalfjarðarsveit. Fyrsti dagurinn í vinnunni fór í að keyra suður til Reykjavíkur og kaupa skrifstofuhúsgögn og tölvur. Síðan var að koma upp öllu kerfi alveg frá grunni og hefja störf. Það var mjög lærdómsríkt. Ég bjó að því lengi hversu mikla ábyrgð ég fékk í Hvalfjarðarsveit og hversu vel mér var treyst fyrir verkefninu að koma skrifstofunni í starfhæft horf og allar götur eftir það, þá tók ég þátt í mörgum verkefnum sem sneru að sveitarfélaginu og fékk því mjög góð verkfæri í bakpokann fyrir framtíðina, seinna varð ég skrifstofustjóri sveitarfélagsins.
Sumarið 2010 var þáverandi eiginmaðurinn farinn að safna að sér gömlum súðbyrðingum til að gera upp og hafði komist í samband við áhugamannafélag um Bátasafn á Breiðafirði sem er staðsett á Reykhólum. Hann mærði staðinn og stóð til að hann myndi setja upp sýningu sem nú er Báta- og hlunnindasýningi á Reykhólum. Ég hafði aðeins komið einu sinni til Reykhóla í mörgum af ferðum mínum með foreldrunum á milli Hafnarfjarðar og Patró í æsku.
Akkúrat á þessum tíma vill svo til að auglýst er eftir sveitarstjóra í Reykhólahepp og ég ákvað að láta á það reyna að sækja um starfið. Þóttist nógu hæf til þess. Ég komst í viðtal, en fékk ekki starfið. En hlaut það nokkrum vikum seinna, þegar í ljós kom að sá sem hafði fengið starfið í upphafi gat ekki sinnt því vegna ákveðinna persónulegra mála.
Þá fluttum við með tvö yngstu börnin á Reykhóla, seinna kom það eldra til okkar. Síðan eru liðin 14 og ½ ár og mikið vatn runnið til sjávar.
Starf sveitarstjórans er ekki auðvelt starf og fylgir því mikil vinna og utanumhald. Sérstaklega í litlu sveitarfélagi eins og Reykhólahreppi. En starfið er mjög gefandi. Eftir að ég tók við starfinu hefur lífið verið ein rússibanareið og tíminn hefur því verið mjög fljótur að líða. Það hefur alltaf verið nóg að gera og í mörg horn að líta. Það var ákaflega vel tekið á móti okkur hér í Reykhólahreppi og gaman að vinna að málefnum sveitarfélagsins bæði heimavið, á Vestfjarða- og landsvísu. Ég tók mér tveggja ára frí frá sveitarstjórastarfinu árin 2018-2020 og vann þá sem framleiðslustjóri hjá Norðursalti á Reykhólum, ég saknaði fljótlega mannlega þáttarins, að hitta fólk og vera í deiglunni þar sem allt gerist.
Ég myndi því segja að ég hafi átt viðburðaríka starfsævi hingað til og er afar þakklát fyrir það. Því miður hef ég lítið haft tíma fyrir áhugamálin, ég tók upp á því að fara í háskólanám árið 2019, hef ekki klárað það enn. Ég er dugleg við hannyrðir þegar ég gef mér tíma, finnst gaman að lesa bækur og njóta náttúrunnar. Mér líður best í góðum gír með fjölskyldunni minni.