Fara í efni

Íslandsmót í hrútadómum: 20 ár frá fyrstu keppni

14.08.2023
Fréttir

Árlegt Íslandsmeistaramót í hrútadómum verður haldið á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum þann 20. ágúst og hefst kl. 14. Á þessu ári eru liðin 20 ár síðan Strandamenn fundu upp þessa skringilegu keppnisgrein og verður því mikið um dýrðir.

Undirbúningur fyrir helgina gengur vel. Það er alltaf góð þátttaka í hrútadómunum, en keppt er í tveimur flokkum. Annars vegar er flokkur þaulreyndra hrútadómara og hins vegar flokkur fyrir óvana og hrædda hrútaþuklara sem kunna ekki stigakerfið. Venjulega eru keppendur um og yfir 50 og fjölmargir fleiri mæta til að horfa á keppendur sýna snilli sína.

Jón Viðar Jónmundsson er yfirdómari að þessu sinni og leiðir dómnefndina. Hún velur fjóra íturvaxna hrúta með nútíma tækjum og tólum og raðar þeim í gæðaröð fyrirfram. Þetta eru ekkert endilega bestu hrútarnir, heldur kannski aðeins misjafnir. Keppnin er nefnilega ekki milli hrútanna sjálfa, heldur eiga keppendur að meta hrútana með hendur og hyggjuvit að vopni og reyna að komast að sömu niðurstöðu og dómararnir.

Vanir keppendur gefa hrútunum stig fyrir einstaka þætti eins og t.d. bakbreidd, læri, útlit og samræmi og fara þá eftir stigakerfi sem bændur gjörþekkja. Óvanir kunna ekki þetta flókna stigakerfi og láta duga að raða hrútunum í sæti frá eitt til fjögur og segja hvernig þau fundu röðina út. Sá rökstuðningur getur skipt máli, ef mörg eru með rétta röð. Veglegir vinningar eru í boði fyrir sigurvegara í báðum flokkum.

Að venju verður kjötsúpa á boðstólum og kaffihlaðborð allan liðlangan daginn. Einnig er stórskemmtilegt happdrætti og eru líflömb frá bændum á Ströndum og í Reykhólasveit í vinning. Þau sem komast ekki á staðinn geta tekið þátt og keypt sér miða í gegnum Facebook síðu Sauðfjársetursins eða hjá Ester í síma 693-3474.

Á síðasta ári stóð Gunnar Steingrímsson á Stóra-Holti í Fljótum uppi sem sigurvegari og er núverandi Íslandsmeistari í hrútadómum. Strandamönnum þykir jafnan nokkuð verra þegar titillinn fer úr héraðinu og munu því væntanlega bíta í skjaldarrendur og þukla sem mest þeir mega á hrútadómunum að þessu sinni. Íslandsmeistarinn fær verðlaunagripinn Horft til himins til varðveislu í eitt ár, en hann var gerður til minningar um Brynjólf Sæmundsson héraðsráðunaut Strandamanna í áratugi. Þess utan eru margir veglegir vinningar