Lengi von á fé af fjalli
Fyrir nokkru fóru þeir í flugtúr, Snæbjörn Jónsson flugstjóri og Guðmundur Sigvaldason viðgerða- og veiðimaður á Reykhólum. Skyggni var allgott þannig að þeim fannst tilvalið að bregða sér á loft og virða fyrir sér umhverfið.
Þeir tóku stefnu norður yfir Þorskafjarðarheiði og þegar þeir voru komnir á móts við botn Kollabúðadals taka þeir eftir kindum í Ísfirðingagili og þá ákveða þeir að svipast betur um. Guðmundur þekkir fjöllin hér í kring öðrum betur og veit hvar líkur eru að finna fé og hvernig það hagar sér.
Horft niður Langadal, mynd, Jens Hansson
Þeir halda áfram norður og í svonefndri Lambatungu, upp af Langadal sáu þeir eina kind. Svo sneru þeir til vesturs, yfir Kollafjarðarheiði og Skálmardalsheiði, og í Skálmardalnum sáu þeir 3 kindur.
Í Ísfirðingagili, mynd, Jens Hansson
Daginn eftir fóru svo félagar úr björgunarsveitinni Heimamönnum og sóttu féð í Ísfirðingagili, sem reyndist vera ær með lamb frá Hríshóli. Daginn þar á eftir sóttu þeir lambið í Lambatungu, hrútlamb sem Kolbeinn bóndi á Kötlulandi átti. Það mátti ekki seinna vera því klammi var yfir öllu þarna, alveg orðið haglaust og hrússi orðinn sár á fótunum af að krafsa eftir einhverju ætilegu.
Mynd, Jens Hansson
Kindurnar í Skálmardalnum voru frá Brjánslæk.