Fara í efni

MAST, fuglainflúensa í ref

03.02.2025
Fréttir

Tilkynningum sem berast Matvælastofnun um dauða og veika villta fugla hefur fækkað. Fuglainflúensa hefur ekki greinst í þeim sýnum úr fuglum sem rannsökuð hafa verið síðustu daga. Aftur á móti greindist fuglainflúensa H5N5 í sýni sem tekið var úr refi í Skagafirði í þessari viku.

Matvælastofnun telur ekki tímabært að álykta að sýking í villtum fuglum sé í rénun og biður fólk að vera áfram vakandi fyrir sjúkdómseinkennum í fuglum og að tilkynna stofnuninni um veika og dauða fugla sem það sér.

Í gær bárust Matvælastofnun niðurstöður rannsókna Tilraunastöðvar HÍ að Keldum á sýnum sem tekin voru úr ref sem aflífaður var í Skagafirði fyrr í vikunni. Íbúi sá refinn og tók eftir að hann var augljóslega veikur; mjög slappur, hreyfði sig lítið og var valtur á fótunum. Tilkynnt var um refinn til Matvælastofnunar, reyndar refaskyttur voru fengnar til að aflífa hann, hræið sent til rannsókna á Keldum og greindist hann með fuglainflúensu af gerðinni H5N5. Í ljósi þessa vill Matvælastofnun biðja fólk að vera líka vakandi fyrir sjúkdómseinkennum eða óeðlilegri hegðun í refum og senda stofnuninni tilkynningu ef það verður vart við veika eða dauða refi.

Rétt er að benda á að fleiri spendýr, svo sem rottur og mýs, geta líka smitast af fuglainflúensu, þótt veiran hafi ekki greinst hingað til í þessum dýrategundum hér á landi. Því miður kemur fyrir að fólk tekur mýs og heldur þær í búrum innanhúss. Matvælastofnun vill benda á að það er varasamt vegna smithættu, auk þess sem það er óheimilt samkvæmt lögum um velferð dýra og það sama á við um öll önnur villt dýr. Ef vart verður við óeðlilegan dauða í músum og rottum skal það tilkynnt til Matvælastofnunar.

Skilaboð til katta- og hundaeigenda eru að smithætta er enn til staðar og því æskilegt að þeir reyni áfram að koma í veg fyrir að dýr þeirra fari í veika eða dauða villta fugla eða spendýr.

Tilkynna skal um veik eða dauð villt spendýr og fugla til Matvælastofnunar með því að smella á hnappinn „ábendingar og fyrirspurnir“ efst á heimasíðu stofnunarinnar (www.mast.is). Mikilvægt er að tilkynningunni fylgi nákvæmar upplýsingar um staðsetningu og best er að skrá hnit staðarins. Nauðsynlegt er að taka fram hvaða fugla- eða dýrategund er um að ræða og/eða láta mynd fylgja með tilkynningunni.

Minnt er á mælaborð um fuglainflúensu á heimasíðu Matvælastofnunar. Mælaborðið hefur verið uppfært og má þar nú finna upplýsingar um allar tilkynningar auk upplýsinga um sýnatökur og niðurstöður rannsókna eins og áður.

Ítarefni

Upplýsingasíða Matvælastofnunar um fuglainflúensu