Fara í efni

Mikil uppbygging að fara af stað á Reykhólum

27.05.2024
Fréttir

Framkvæmdir eru að hefjast á Reykhólum við byggingu þriggja fjögurra íbúða raðahúsa. Eitt húsanna er byggt fyrir Bríeti, leigufélag Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, og annað fyrir Brák sem er íbúðafélag nokkurra sveitarfélaga úti á landi. Hið þriðja er reist af Tekta í Borgarnesi, en í því verða litlar útleiguíbúðir.

Um þetta og fleira er fjallað í viðtali sem Sigurður Bogi Sævarsson blaðamaður tók við Hrafnkel Guðnason verkefnisstjóra hjá Reykhólahreppi og er birt í morgunblaðinu, 25. maí sl.

Greinin er í heild sinni hér: 

„Hér á Reykhólum búa í dag um 110 manns og því munar mjög um fyrir íbúaþróun hér að tólf nýjar íbúðir verði teknar í notkun. Þetta skapar möguleika til vaxtar,“ segir Hrafnkell Guðnason, verkefnastjóri framkvæmda og uppbyggingar hjá Reykhólahreppi. Íbúar sveitarfélagsins eru í dag um 240.

Sjálfbærni í atvinnumálum

„Húsnæðisskortur hefur staðið mörgu hér um slóðir fyrir þrifum. Hér hefur verið næga vinnu að hafa en fólk vantar íverustað. Því munar mjög um þessa viðbót og húsin nýju verða væntanlega tekin í gagnið fyrir árslok,“ segir Hrafnkell sem kom til starfa á Reykhólum síðasta haust. Verkefnin vestra segir hann vera mörg og spennandi.

Í Reykhólasveit er sjálfbær nýting landsins gæða uppistaða atvinnulífsins, svo sem vinnsla á þörungum og salti og sauðfjárbúskapur. Einnig er margvísleg þjónustustarfsemi á Reykhólum, grunnskóli, dvalarheimili, sundlaug og tjaldsvæði. Í dag þykir mikilvægt að kjörbúðarrekstur verði þar endurvakinn: búð þar sem hægt er að fá mjólk, brauð og fleira slíkt er þýðingarmikil. Vinnur sveitarfélagið að því að fá kaupmann á svæðið, að sögn Hrafnkels.

Í Reykhólasveit er einnig að störfum verkefnastjóri sem hefur þann starfa að byggja upp hringrásarsamfélag.

„Ungt fólk af svæðinu vill skapa sér sína framtíð hér og þá eru húsnæðismálin grunnþáttur,“ segir Hrafnkell. „Leigufélög eru góð en í Íslendingum er ríkt að vilja eiga húsið sitt sjálfir. Að byggja úti á landi hafa verið takmörk sett af því að á mörgum stöðum er markaðsverð eigna lægra en byggingarkostnaður. Því þurfa stjórnvöld að mæta og gætu nýtt virðisaukaskattskerfið í þeim tilgangi fordæmum samkvæmt.“

Gáttin inn á Vestfirði

Síðasta haust var vegfylling og brú yfir Þorskafjörð í Reykhólasveit tekin í notkun svo og vegur um Teigsskóg. Nú er haldið áfram með samgöngubætur á þeim slóðum, það er brýr og fyllingar yfir Gufu- og Djúpafjörð sem ættu að komast í notkun eftir um tvö ár.

„Reykhólasveit er með þessum framkvæmdum í gáttinni inn á Vestfirði. Slíkt skapar tækifæri, til dæmis í ferðaþjónustu, því fyrirsjáanlega mun umferð hér aukast til dæmis þegar nýr vegur yfir Dynjandisheiði er tilbúinn. Með því færist aðalleiðin til og frá Ísafirði úr Djúpi á suðurleiðina og í því felst mikil breyting,“ segir Hrafnkell á Reykhólum.