Nemendaþing í Reykhólaskóla

Þann 22. apríl var haldið nemendaþing í Reykhólaskóla.
Allir nemendur grunnskóladeildar tóku þátt og var þeim skipt upp í hópa þvert á aldur.
Hóparnir tóku þátt í hugstormun um það hvað þeim þykir gott við skólann, hverju þau vilja meira af, hverju þau eru stolt af og hver einkunnarorð skólans ættu að vera. Hugmyndir og tillögur voru svo flokkaðar saman og kosið um þær sem nemendum hugnaðist best.
Nemendur stóðu sig með stakri prýði, tóku virkan þátt, aðstoðuðu hvert annað og höfðu fjölmargt gott til málanna að leggja. Það má með sanni segja að niðurstöður þingsins sýni fram á að nemendum líði vel í skólanum, þau eru ánægð með samstöðu nemenda, starfsfólkið, aðstöðuna og matinn. Nemendur eru stoltir af skólanum sínum og frammistöðu sinni og samnemenda sinna í námi.
Sams konar vinna fór fram meðal starfsfólks nýverið og svipuðum upplýsingum var safnað frá foreldrum í tenglum við skólaþing í haust.
Allar þessar upplýsingar verða svo settar saman í nýja sýn og stefnu sem verður leiðandi fyrir starf Reykhólaskóla. Ný sýn og stefna verður kynnt á opnum skólaráðsfundi þann 28. apríl kl 16:00 á bókasafni Reykhólaskóla og eru öll velkomin.