Nú er hægt að aka yfir Þorskafjörð
Fjöldi fólks kom til að vera viðstatt opnun nýju brúarinnar yfir Þorskafjörð, en þetta er 8 mánuðum fyrr en áætlað var að taka hana í notkun.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar og Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri Reykhólahrepps opnuðu brúna formlega með því að klippa á borða, að loknum ávörpum Sigurðar Inga og Bergþóru.
Skæravörður var Yrsa Dís Styrmisdóttir í Fremri Gufudal.
Fyrst til að fara yfir brúna -eftir formlega opnun- var Jóhanna Ösp Einarsdóttir formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga og varaoddviti Reykhólahrepps, ásamt dætrum sínum Ásborgu og Yrsu Dís Styrmisdætrum. Þær sem sagt fóru ríðandi yfir Þorskafjörðinn eins og Gull-Þórir nokkru fyrr.
Öllum viðstöddum var svo boðið að þiggja veitingar í Bjarkalundi þar sem einnig var dagskrá og margir tóku til máls. Félagar úr harmonikkufélaginu Nikkólínu mættu í Bjarkalund og fluttu nokkur lög af sinni víðkunnu snilld.
Ingibjörg Birna Erlingsdóttir stýrði samkomunni í Bjarkalundi. Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar ávarpaði samkomugesti.
Þórólfur Halldórsson fyrrum sýslumaður tók til máls. Aldursforseti Reykhólahrepps, Kristinn Bergsveinsson heilsar Sigurði Inga Jóhannsyni innviðaráðherra.
Það er Suðurverk hf. sem sér um þetta verk, ásamt Eykt ehf. og Steypustöðinni ehf. sem steyptu brúna og Borgarverki ehf. sem lagði bundið slitlag á veginn.
Það var árið 1948, fyrir 75 árum , sem fyrst var gerður akfær vegur fyrir Þorskafjörð. Hann var svo endurbyggður og færður til í mörgum áföngum á árunum 1973 – 2008. Það má því segja að þetta sé 3. vegurinn sem er lagður þessa leið.
Vegna þess að Gull-Þórir hefur verið nefndur til sögunnar í tengslum við þessa vega- og brúargerð, er birt hér til gamans kvæði eftir Guðmund Arnfinnsson frá Hlíð um gömlu byggðina við Þorskafjörð, með góðfúslegu leyfi hans.
Þorskafjörður
Í Þorskfirðingasögu segir: "Helzt þat ok lengi síðan,at menn sá dreka fljúga ofan um þeim megin frá Þórisstöðum,ok Gullfors er kallaðr,ok yfir fjörðinn í fjall þat, er stendur yfir bænum í Hlíð".
Svartur af logni, fegurstur allra fjarða,
fræg er saga þín, arfur frá gamalli tíð.
Gull sótti Þórir í greipar vikingsins harða,
gætir þess drekinn í fjallinu yfir Hlíð.
Handan fjarðarins Gullfoss í gili streymir,
Gull-Þóris andi títt mun á sveimi þar,
fjármuni sína í fossins iðu geymir,
fólgnar munu þar dýrustu gersemar.
Vítt sér drekinn úr voldugum hamrasölum,
Valshellisgullið hverfur ei sjónum hans.
Lýsir af glóðum,þegar dimmir í dölum,
djúpt inn í leyndustu afkima flugdrekans.
Veit hann til sín, þótt blundi, uns birtir af degi.
Bregður á fjallseggjar glampa frá rísandi sól.
Kynngimagmaður utan við alfaravegi
andi Gull-Þóris ríkir á fjallastól.
Örnefni máttug og fornleg í huganum hljóma:
Hjaðningar, Nónborg,Katlar og Sléttafell.
Lítt þó að státi af litprýði sumarblóma,
ljóma í tunglskini hæðir með fannir og svell.
Tröllslegt er umhverfið, falla þar fossar glaðir.
Við fjörðinn að sunnan byggst hafa staðirnir:
Laugaland, Hlíð, þá Hof og Kinnarstaðir,
heita þar Skógar, sem Uppsalir voru fyrr.
Byggðina fornu ljúft er að leiða sjónum
í landnámi Hallsteins á ströndinni norðan til.
Hlýlegt er þar í hlíðum birkigrónum,
hlæjandi streyma lækir um flúðir og gil.
Hallsteinsnes, Gröf og Hjallar, Þórisstaðir,
í hugann koma þau fornhelgu staðarnöfn,
þar sem að forðum þeystu heim bæjartraðir
Þórir og menn hans, komnir um æsta dröfn
.
Stafaði ljóma af lofstír víkinganna,
leiftruðu sverð og heimt voru otursgjöld.
Stóð þarna löngum styrr á milli granna,
stöðugt var baráttan háð um auð og völd.
Hesti var stefnt að kolbláum Kóngavökum,
Kinnskær hinn gamli markaði spor í svörð.
Gnötraði loft af gneggi og hófatökum,
er Gull-Þórir hleypti til sunds yfir Þorskafjörð.
Múli og Kollabúðir í botni fjarðar,
bæjatöluna fylla staðir þeir.
Í austri hefjast hátt upp af skauti jarðar
hnjúkarnir glæstu Vaðalfjalla tveir.
Svartur af logni og friðsæll að fjallabaki
fagnaðu gesti, hugþekkur ár og síð.
Trúr yfir gullinu lengi á verðinum vaki
og verndi þig drekinn í fjallinu yfir Hlíð.