Ný flugvél í Reykhólahreppi
Í gær lenti nýjasta flugvélin í flugflota Reykhólahrepps, TF-KAS, á túnflöt á Hofsstöðum sem gegnir einnig hlutverki flugbrautar.
Það eru þeir félagar Snæbjörn Jónsson og Sigmundur Magnússon sem eiga þessa flugvél. Þeir eru búnir að reka þetta „flugfélag“ í tæp 9 ár, snemma árs 2016 keyptu þeir samskonar vél, TF-KAO, sem þeir hafa átt þar til þeir skiptu núna fyrir skömmu. Þeirri flugvél bregður fyrir í kvikmyndinni Djöflaeyjan.
Sigmundur kom með nýju vélina frá Haukadalsmelum, sem eru ekki langt frá Heklu.
Þessi flugvél er af gerðinni Piper Cub Special og þó að hér sé talað um „nýju vélina“ þá er hún árgerð 1946, það segir þó ekki alla söguna því hún var endurbyggð árið 2006 og hefur lítið verið notuð síðan. Þessar vélar eru afar einfaldar að allri gerð en traustbyggðar.
Félagarnir Simmi og Snæi eru mjög greiðviknir og hafa oft skroppið með bændur í flugtúra til að svipast eftir kindum, eins hafa þeir stundum rekið augun í eftirlegukindur ef þeir hafa flogið að gamni sínu yfir heiðarnar í kring þegar komið er fram á haust.