Viltu verða fulltrúi Reykhólahrepps í verkefninu Brothættar byggðir?
Reykhólahreppur tekur þátt í verkefninu Brothættar byggðir með Byggðastofnun, verkefnið er til minnst fimm ára.
Aðalmarkmið verkefnisins Brothættra byggða er að spornað verði við viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðarlögum.
Undirmarkmið verkefnisins eru eftirfarandi:
- Að auka viðnámsþrótt brothættra byggðarlaga gegn hnignun svo sem fólksfækkun, skekktri aldursdreifingu og áföllum í atvinnulífi.
- Að virkja frumkvæði og samtakamátt íbúa og auka vitund þeirra um eigin þátt í þróun samfélagsins.
- Að gefa íbúum kost á að taka þátt í forgangsröðun málefna.
- Að stilla saman strengi ríkis, sveitarfélags, opinberra stofnana, atvinnulífs og íbúa í ákvörðunum sem varða viðkomandi byggðarlag.
- Að nýta verkefnið til að vekja athygli á viðfangsefnum sem eiga við í fleiru en einu byggðarlagi og leita lausna á þeim í samstarfi við stjórnvöld og aðra hagsmunaaðila.
Reykhólahreppur og Byggðastofnun óska eftir tveimur fulltrúum íbúa í verkefnastjórn, en í stjórninni munu sitja ásamt tveimur íbúum, 1 fulltrúi sveitarstjórnar, 1 fulltrúi Vestfjarðastofu og 2 fulltrúar Byggðastofnunar. Ráðinn verður verkefnastjóri sem verður starfsmaður verkefnisins og mun hann hafa aðstöðu í sveitarfélaginu.
Reykhólahreppur hvetur íbúa til þátttöku í verkefninu. Ef þú vilt taka þátt, sendu okkur póst á netfangið skrifstofa@reykholar.is fyrir 13. nóvember n.k. Einnig má tilnefna fulltrúa sem þú vilt að taki þátt.