Sautján sóttu um starf sérfræðings í loftslagsmálum hjá Byggðastofnun
Sautján sóttu um starf sérfræðings í loftslagsmálum hjá Byggðastofnun en starfið er óstaðbundið sem er í samræmi við byggðastefnu stjórnvalda.
Sigríður Elín Þórðardóttir forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar, segir þennan málaflokk mjög mikilvægan og brýnt að búa til vegvísi og aðgerðaráætlun um hvernig sveitarfélög um allt land geti brugðist við nýjum áskorunum og verkefnum vegna breytinga í umhverfi okkar vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Hún segir fjölda umsókna um starfið endurspegla vaxandi þörf á að grípa þurfi til aðgerða fljótt og margir mjög hæfir umsækjendur hafi boðið fram krafta sína.
Verkefnið sem um ræðir er til tveggja ára og er samstarfsverkefni umhverfis,-orku-og loftslagsráðuneytis, Byggðastofnunar , Veðurstofu Íslands og Skipulagsstofnunar og verður einnig unnið í nánu samstarfi við aðrar stofnanir og hagaðila. Það snýst um að skapa skýran farveg og ferla fyrir íslensk sveitarfélög þegar kemur að mótun aðlögunaraðgerða og þannig hámarka aðlögunargetu þeirra gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga og lágmarka um leið efnahagslegt tjón og neikvæð áhrif loftslagsbreytinga á íslenskar byggðir, atvinnuvegi, innviði, samfélög og byggðaþróun.
Fimm íslensk sveitarfélög taka þátt í verkefninu sem hvert um sig er að takast á við ólík verkefni vegna loftslagsáhrifa.
Ragnhildur Friðriksdóttir sérfræðingur Byggðastofnunar í loftslagsmálum sem mun leiða verkefnið segir sveitarfélög um alla Evrópu finna fyrir áhrifum loftslagsbreytinga og séu aðgerðir, fjármögnun og hlutverk sveitarstjórnarstigsins að verða eitt af lykil viðfangsefnum þegar kemur að aðlögun ríkja og samfélaga að áhrifum loftslagsbreytinganna.
“Það er brýnt að ræða og skilgreina fjármögnun og hlutverkaskipti milli ríkisstjórna og sveitarfélaga en ekki síður að þróa og sannreyna aðferðir og ferla sem nýtast til þess að móta aðlögunaraðgerðir. Þetta er meira aðkallandi nú en nokkru sinni fyrr”. segir Ragnhildur.
Verkefnið fer af stað innan sveitarfélaganna fimm í haust og verður rýnt í áhrif loftslagsbreytinga innan íslenskra sveitarfélaga , s.s. skriðuföll, þurrka, gróðurelda, óstöðugar hlíðar og ofsaveður og aðgerðir til varnar. Sveitarfélögin sem um ræðir eru Akureyrarbær, Fjallabyggð, Sveitarfélagið Hornafjörður, Reykhólahreppur og Reykjanesbær.
Verið er að fara yfir umsóknirnar sautján og verður haft samband við alla sem sóttu um.