Sögufylgjunámskeið á Reykhólum

Fyrir nokkrum dögum var á Reykhólum sögufylgjunámskeið með Inga Hans Jónssyni, sem býr í Grundarfirði og Ragnhildi Sigurðardóttur bónda á Álftavatni í Staðarsveit.
Ragnhildur Sigurðardóttir Ingi Hans Jónsson
Hlédís Sveinsdóttir
Námskeiðið var í röð námskeiða sem haldin hafa verið í verkefninu Leiðir til byggðafestu. Með í ferðinni var Hlédís Sveinsdóttir, en hún hefur séð um þetta verkefni ásamt Birni Bjarnasyni og haldið utan um námskeiðin.
Bæði Ingi Hans og Ragnhildur hafa langa reynslu í frásögn og miðlun sagna. Á Snæfellsnesi hefur verið stofnað félag um Sögufylgjur. Það eru gríðarleg tækifæri í sögufylgd, þessi grein þarf litla sem enga yfirbyggingu en hefur mikil tekjutækifæri og alveg tilvalin búbót upp til sveita.
Þau fóru yfir hugmyndafræðina og tóku dæmisögur af Snæfellsnesi og almennt um sagnamiðlun.
Eins og áður segir eru þau engir viðvaningar þegar kemur að miðlun sagna, má þá einu gilda hvort um er að ræða frásagnir af alvarlegum atburðum, þjóðsögur og sagnir sem tengjast ýmsum stöðum, eða skrýtlur og skemmtisögur svo eitthvað sé nefnt.
Ingi Hans á gott með að færa einfaldar sögur í skemmtilegan búning og hefur þær gjarnan eftir nafngreindum mönnum úr sínu umhverfi. Sumar eru hreinar ýkjusögur, eingöngu sagðar til að létta mönnum lund, en meiða engan.
Hann hefur kynnt sér sagnaarf og sagnamennsku í Skotlandi og þar tala þeir um að gefa sögur, þegar við erum að segja sögur. Saga sem er gefin verður áheyrandanum efni til að hugleiða eða gefa áfram.
Þegar Ingi Hans var að fara yfir hvað góð saga þyrfti helst að innihalda, og hvað þyrfti að varast ef menn ætla að miðla sögum, þá sagði/gaf hann sögu af kunningja sínum úr æsku sem hafði ákaflega gaman af að segja sögur og ef hann heyrði nýja sögu, þá kunni hann allaf aðra betri.
Gamansamur strákur einsetti sér að segja honum svo mergjaða sögu að hann myndi aldrei geta bætt um betur, og stuttu seinna kom tækifæri. Sagt var frá í fréttum gríðarmiklu hvassviðri sem gekk yfir Austfirði. Strákurinn fer og hittir manninn -hann getur hafa heitið Helgi- og segir; Helgi minn, heyrðirðu af rokinu sem var á Seyðisfirði um daginn? „Nei, var það eitthvað mikið?“ spyr Helgi á móti. „Ja, það var víst gríðarhvasst, það voru 18 fullar olíutunnur á bryggjunni og það kemur vindhviða og það skrúfast tapparnir úr þeim öllum!“ Helgi klórar sér á hökunni og segir svo, „Það kom nú hér einu sinni suð-austan hvellur og tók af grunninum nýbyggt tvílyft hús og feykti því hér niður í fjöru, en þá sneri hann sér í norð-vestan spænurok og húsið fauk til baka á grunninn“
„Nei nú lýgur þú Helgi“ segir strákur, en Helgi svarar, „Ég get svo svarið það, það svaf maður í kvistinum uppi!!“