Fara í efni

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Flatey

09.07.2024
Fréttir
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra með fulltrúum stýrihóps um Framtíðarmöguleika Breiðafjarðar, Breiðafjarðarnefndar, Sambands sveitarfélaga á Vesturlandi, Fjórðungssambands Vestfjarða, Náttúrufræðistofnunar, Náttúrustofu Vesturlands, bæjarstjóra Stykkishólmsbæjar, ásamt fleirum.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra með fulltrúum stýrihóps um Framtíðarmöguleika Breiðafjarðar, Breiðafjarðarnefndar, Sambands sveitarfélaga á Vesturlandi, Fjórðungssambands Vestfjarða, Náttúrufræðistofnunar, Náttúrustofu Vesturlands, bæjarstjóra Stykkishólmsbæjar, ásamt fleirum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur staðfest stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið Flatey á Breiðafirði.

Flatey var friðlýst sem friðland árið 1975, en árið 2021 var friðlýsingin endurskoðuð og friðlandið stækkað. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda sérstætt og fjölbreytt lífríki svæðisins og búsvæði fugla, einkum varpsvæði fágætra fuglategunda. Friðlandið hefur hátt vísinda- og fræðslugildi og er vel þekkt á meðal vísindamanna og fuglaáhugafólks. Friðlýsingunni er einnig ætlað að tryggja rannsóknir og vöktun á lífríki svæðisins, með áherslu á búsvæði og afkomu varpfugla og að tryggja fræðslu um fuglalífið í eynni og nágrenni.

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Flatey er náttúruperla þar sem fyrirfinnst mikil friðsæld í bland við fjölskrúðugt fuglalíf. Á eyjunni fer saman náttúruvernd og nýting, sem er bæði í formi þess að ábúendur nytja hluta friðlandsins til túnræktar, beitar og dúntekju, sem og að ferðamenn sækja eyjuna heim til að upplifa náttúru og menningu hennar. Meginmarkmið áætlunarinnar er að móta stefnu um verndun friðlandsins í sátt við ábúendur, landeiganda , gesti og aðra hagsmunaaðila.“

Í stjórnunar- og verndaráætluninni er lögð fram stefnumótum til framtíðar, ásamt aðgerðaáætlun til eins árs. Stjórnunar- og verndaráætlunin var unnin í samstarfi Umhverfisstofnunar, ábúenda í Flatey, fulltrúa Reykhólahrepps og fulltrúa Framfarafélags Flateyjar.

Friðland er einn flokkur friðlýstra svæða og þar er markmiðið að vernda tilteknar vistgerðir og búsvæði og styrkja verndun tegunda lífvera sem eru sjaldgæfar eða í hættu samkvæmt útgefnum válistum eða til að vernda lífríki sem er sérstaklega fjölbreytt eða sérstætt.