Fara í efni

Verum góð hvert við annað

09.02.2024
Fréttir
Pálmar Ragnarsson
Pálmar Ragnarsson

Í gær var Pálmar Ragnarsson hvatningarræðumaður, ættaður af Ströndum, með fyrirlestra á Reykhólum. Þar fjallaði hann á léttan og gamansaman hátt um hvernig getur verið auðvelt að tileinka sér jákvæðan samskiptamáta við fólkið í kringum sig.

Velflestir hér þurfa nú ekki ítarlega tilsögn í að koma vel fram við náungann, en það er ágætt að fá ábendingar um ýmis atriði því það sem maður er vanur hættir maður oft að sjá og heyra.

Það var Jóhanna Ösp tómstundafulltrúi sem stóð fyrir þessum fundum og frá henni eru stolnar og stældar eftirfarandi vangaveltur að loknum fyrirlestrum.

Taka eftir öllu því góða sem fólk gerir en ekki eingöngu því sem það gerir vitlaust.

Segja frá þegar maður sér góða hluti gerast!

Vera opinn fyrir því að kynnast nýjum hlutum og fólki!

Sjá fólkið í kringum sig og hlusta á það.

Láta fólk sem flytur hingað finna að það sé velkomið.

Þá fær maður bestu útgáfuna af fólkinu í kring um sig og verður skásta útgáfan af sjálfum sér.

Svo er það að minna sig á þessar lífsreglur reglulega, mögulega nokkrum sinnum á dag.

Ef við drögum saman það sem Pálmar fjallaði um, þá er niðurstaðan að ef við högum okkur meðvitað eins og almennilegt fólk og komum fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur, þá verður lífið til muna bærilegra.