Fara í efni

Vinnu við nýju húsin á Reykhólum miðar vel

27.02.2025
Fréttir

Nýju raðhúsin á Reykhólum sem eru í eigu Bríetar, Brákar og Reykhólahrepps eru að mestu leyti frágengin að utan og komnir upp veggir og loftaklæðningar inni. Iðnaðarmenn eru að störfum núna í húsi Bríetar og hreppsins.

Í húsi Reykhólahrepps er Hrólfur Ingi Eggertsson málarameistari ásamt sínum mönnum.

   

 

Í húsi Bríetar eru Garðar Jónsson, sömuleiðis málarameistari og Jón Steinar Eyjólfsson rafvirki, þar var einnig pípulagningamaður sem láðist að spyrja að heiti. Hann ásamt Jóni Steinari var að gangsetja hitakerfi í einni íbúðinni sem er frekar nýstárlegt hérlendis, það er gólfhitakerfi þar sem heitt loft en ekki vatn er notað til að flytja varmann um kerfið. Loftið er hitað með vatni en vatnslagnir eru til mikilla muna styttri og færri en í hefðbundnu gólfhitakerfi.