Yngsti bóndi landsins í Reykhólasveit
Í vor keypti Kolbeinn Óskar Bjarnason búreksturinn og fjárhús á Kötlulandi, sem er í útjaðri þorpsins á Reykhólum. Býlið Kötluland er þar sem áður var tilraunastöð ríkisins í jarðrækt og síðar ræktun á hreinhvítu fé.
Jörðin er í eigu Reykhólahrepps og leigir Kolbeinn land og 24 hektara af túnum. Bústofninn sem hann keypti eru 220 kindur, en fjárhúsin rúma tæplega 400 fjár. Fyrir 5 árum voru fjárhúsin löguð og endurnýjuð, og komið fyrir gjafagrindum.
Þó Kolbeinn sé ungur, tæpra 18 ára, er hann enginn viðvaningur við bústörf, alinn upp bæði við sauðfjár- og kúabúskap og áhuginn liggur þar.
Þegar þetta er skrifað er sauðburði að ljúka á Kötlulandi, 5 óbornar ær. Kolbeinn segir að það hafi gengið ljómandi vel, megnið af ánum borið á 2 vikum og engin teljandi vanhöld. Kolbeinn er ættaður frá Borg og á nokkuð stóran frændgarð á Reykhólum, sem hefur skotist og létt undir með honum í sauðburðinum.